02.02.2010 06:10

Safna fyrir leit að Hans Hedtoft


 
Hópur kafara ætlar að standa fyrir landssöfnun í Grænlandi til að kosta leit að flaki Grænlandsfarsins Hans Hedtoft. Skipið, sem átti að vera ósökkvandi, rakst á ísjaka í jómfrúrferð sinni og fórst 31. janúar 1959. Allir sem voru um borð, 40 manna áhöfn og 55 farþegar eða alls 95 manns, fórust.

Það eina sem fannst úr Hans Hedtoft var björgunarhringur sem rak hjá Magnúsi Hafliðasyni á hrauni og fannst 7. október 1959. Sjóslysið vakti gríðarmikla sorg og athygli og eitt hið umdeildasta í sjóslysasögu Dana á síðustu áratugum, að sögn grænlenska vefmiðilsins Sermitsiaq.gl.

Slysið sjálft er sveipað hulu. Menn hafa velt því fyrir sér hvort raunveruleg ástæða þess sé sú að skipið hafi siglt á ísjaka, eins og loftskeytamaður skipsins tilkynnti. Einnig hafa menn velt því fyrir sér hvort galli hafi verið á smíðinni og sprunga opnast þannig að sjórinn flæddi inn. Ekki er heldur ljóst hvar Hans Hedtoft sökk.

Thomas de Richelieu kafari, sem hefur sérhæft sig í að kafa í skipsflök, og Claude Enoch, skipstjórnarmaður á eftirlaunum,  vilja leita svara við einhverjum af öllum þeim spurningum sem enn er ósvarað varðandi það þegar Hans Hedtoft fórst.

Richelieu er þeirra skoðunar að smíðagalli hafi valdið því að skipið fórst. Hann heldur því fram að við vélarrúmið hafi verið veikur punktur og að þar hafi rafsuða í byrðingi skipsins gefið sig. Þeir Richelieu og Enoch telja einnig að skipið hafi ekki verið nógu sterkbyggt til siglinga í Norður-Atlantshafi að vetri.



Þetta er ekki fyrsta tilraunin til að finna flakið af Hans Hedtoft. Þeir Richelieu og Enoch hófu markvissar tilraunir til þess árið 2003. Nú vilja þeir safna sjö milljónum danskra króna til leitarinnar. Það á að nægja til að finna og taka kvikmynd af flakinu.

Ein slík tilraun var t.d. gerð árið 2006 þegar Richelieu og kafarar um borð í varðskipinu Vædderen reyndu að staðsetja flak Hans Hedtoft.


 
Bjarghringurinn af Hans Hedtoft, sem rak hjá Magnúsi Hafliðasyni á Hrauni 7. október 1959. Níu mánuðum áður sigldi skipið á ísjaka og sökk suður af Hvarfi í jómfrúarferðinni 31. janúar 1959. 95 fórust. Mynd Ólafs af Magnúsi bónda vakti gífurlega athygli í Danmörku, birtist yfir þvera forsíðu Berlingske Tidende og í öllum öðrum dönskum blöðum.




Flettingar í dag: 61
Gestir í dag: 34
Flettingar í gær: 2214
Gestir í gær: 79
Samtals flettingar: 145120
Samtals gestir: 14575
Tölur uppfærðar: 6.5.2024 15:07:55